“Olga Hallgrímsdóttir var dæmigerð íslensk amma. Maður gat beðið hana um að prjóna peysu á, segjum, sjö ára barn og einni eða tveimur vikum seinna myndi hún skila af sér fallegri peysu sem passaði fullkomlega.
“hún fyndi það í höndunum”
Hún útskýrði þennan hæfileika fyrir mér þannig að hún fyndi það í höndunum hversu margar lykkjur átti að fitja upp. Hún þurfti ekkert að ákveða fyrirfram hvernig flíkin ætti að verða eða gera neinar teikningar né útreikninga; hún fitjaði einfaldlega upp á réttum lykkjufjölda og skáldaði flíkina upp úr sér. Litasamsetningar og munstur réðust oft einfaldlega af því hvaða ull hún átti til heima hjá sér. Það var einmitt þetta sem gerðist árið 2007 þegar ég bað ömmu Olgu um að prjóna peysu á elstu dóttur mína, og langömmubarnið hennar, hana Sylviu. Olga prjónaði þá þessa hentugu þrílitu hettupeysu með rennilás.
“Olga lagði ávallt mikinn metnað í allan frágang”
Ég er mjög hrifin af þessari hönnun þar sem hún heldur í helstu einkenni hefðbundinnar íslenskrar lopapeysu, en er þó á sama tíma afar nútímaleg, enda leikur hún sér að munsturhefðinni. Peysan er einnig ákaflega vel prjónuð. Olga leit ávallt svo á að sjálf prjónamennskan væri aðeins helmingur verksins og hún lagði ávallt mikinn metnað í allan frágang.
Amma Olga dó fyrr á þessu ári, 93 ára gömul. Hún dó eins og hún lifði, með miklum glæsileik. Hún var klædd í sitt fínasta púss, enda gestur í afmælisveislu. Hún skemmti sér konunglega í veislunni með vinum og fjölskyldu, en þegar kom að því að fara heim fann hún fyrir þreytu. Hún fékk sér sæti á bekk með syni sínum og andaðist þar.
Það gleður mig mjög að Olga amma gefur út sína fyrstu uppskrift á vef Prjónakerlingu, þó það sé að henni liðinni.
“sala uppskriftarinnar rennur til góðgerðarfélag Bonisa-Olga fyrir börn í Suður-Afríku”
Ég er sannfærð um að hún yrði afar ánægð með að ágóðinn af sölu uppskriftarinnar rennur til Bonisa-Olga sjóðsins, sem er lítið góðgerðarfélag sem rekur dagheimili fyrir börn í Cape Town í Suður-Afríku.
Það er saga að segja frá uppruna Bonisa-Olga sjóðsins. Barnabarn Olgu og mágkona mín býr í Suður-Afríku með manninum sínum. Hún sagði ömmu Olgu gjarnan sögur af Brendu. Brenda er afrískt kjarnakvendi sem beitir sér fyrir umbótum í fátækrahverfinu Phlippi block í Cape Town, þar sem hún býr. Á Xhosa-tungumálinu er hún oft kölluð Bonisa in Xhosa, en það þýðir “sú sem vísar veginn.” Hún lét langþráðan draum sinn rætast í fyrra þegar hún stofnaði Bonisa EduCare, dagheimili og leikskóla fyrir börn sem, vegna skorts af slikum stofnum, eru annars skilin efttirlitlaus, illa hirt og oftast matarlaus á meðan mæður þeirra eru að vinna.
“leið til að heiðra minningu hennar”
Olga var mjög áhugasöm um framgöngu Brendu og velti því stundum fyrir sér hvernig hún gæti lagt sitt af mörkum til þessa verðuga verkefnis. Nokkrum vikum eftir að Olga lést hittist fjölskyldan til þess að finna leið til að heiðra minningu hennar. Þá varð til hugmyndin um að stofna Bonisa-Olga sjóðinn, enda gæti Olga þannig loksins hjálpað Brendu við uppbygging og rekstur leikskóla sinn. Hér má fylgjast með hvernig gengur: bonisaeducare.wordpress.com ”
Stærðir: 1(2,3,4,6,8,10,12) ára. Yfirvídd: 53(57,61,65,69,73,77,81) cm
Gráa peysan er á 8 ára, brúna peysan er á 10 ára og sú ljósfjólubláa á 2 ára
Prjónfesta: 10 x10 cm = 15 L x 19 umf slétt prjón á 5,5mm prjón.
Garn: Léttlopi, 100% hrein íslensk ull, 50g/dokkan, 50g = ca.100m
Litur A: 1(1,2,2,2,3,3,3) dokkur
Litur B: 2(2,2,2,3,3,3,3) dokkur
Litur C: 1(1,2,2,3,3,3,3) dokkur
Litir A/B/C: grátt 0058/0057/0054; brúnt 0052/0053/0085; fjólublátt 9417/1414/1413; grænt 1407/9421/1406
Prjónar: Langir og sveigjanlegir hringprjónar, stærðir 4.5m og 5,5 mm; magic loop-aðferðin er notið til þess að prjóna lítil ummál; heklunál, stærð 4 mm
Annað: prjónamerki, stoppunál, geymslunálar, málband, saumavél, rennilás.
Aðferð: prjónað í hring, tvíbandaprjón, klipt í.
Uppskrift: hún kemur sem PDF niðurhal en er ekki send í pósti.
Kit: Pakkinn inniheldur garn en ekki prjóna eða önnur áhöld. Sendingarkostnaður er innifalinn í verði. Uppskriftin fylgir með prjónapakkanum sem PDF niðurhal en er ekki send í pósti.
Villur: það fannst villa, sjá leiðréttingu.