Hélène Magnússon

“Mér finnst gaman að bregða á leik með íslenskar prjónahefðir. Hönnun sem hefur sterk tengsl við Ísland og íslenska menningu höfða sérstaklega til mín. Hefðbundin munstur sem eru sett í nýtískulegt samhengi vekja áhuga min. Prjónakerling er fyrsta íslenska prjonaritið á netinu. Á síðunni getið þið fundið frábærar uppskriftir eftir sjálfa mig og aðra sjálfstæða hönnuði, og einnig áhugaverðar greinar um Ísland.

Óþrjótandi áhugi minn á hinni íslensku prjónahefð, ásamt reynslu minni sem fjallaleiðsögumaður á Íslandi, er hvatinn að prjónaferðunum mínum. Ferðirnar bjóða upp á blöndu af stórfenglegri íslenskri náttúru, íslenskri menningu og prjónanámskeiðum.”

Hélène er frönsk að uppruna. Hún lauk meistaraprófi í lögum og starfaði um skeið sem lögmaður í París. Árið 1995 söðlaði hún um og flutti til Íslands þar sem hún vann árum saman sem fjallaleiðsögumaður meðfram því að læra textíl og fatahönnun við Listaháskóla Íslands. Hún útskrifaðist árið 2005. Hún er einna þekktust fyrir rannsóknir sínar á íslensku rósaleppaprjóni og gaf í því samhengi út bókina Rósaleppaprjón í nýju ljósi sem nú er fáanleg á þremur tungumálum. Bókin Íslenskt prjón byggir  á handprjónuðum munum sem varðveittir eru í Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi og gefur góða innsýn í prjónahefð íslendinga á seinni hluta 19. og fyrri hluta 20. aldar.

Hélène hefur tekið þátt í fjöllmörgum hönnunarsýningum á Íslandi og erlendis og verk eftir hana hafa verið birt í virtum tímaritum svo og bókum.