Það skiptir ekki máli hvað Hélène tekur sér fyrir hendur, henni tekst alltaf á einn eða annan hátt að tengja það prjóni. Retour d’Islande (Heim frá Íslandi) er þar engin undantekning. Þessi fallega myndskreytta barnabók, með myndum eftir Charline Picard, er frásögn af ferðamanni sem ferðast um Ísland og dáist að þessu óvenjulega landi þar sem landslagið minnir stundum á tunglið: goshverir, jöklar, ár, norðurljðós, miðnætursól og mikilfenglegir hvalir svamlandi í kring.
Svo ekki sé minnst á tröllin, þessar klunnalegu verur sem Íslendingar taka háalvarlega, eða prjónandi Íslendinga sem við hjá Knitting Iceland tökum svo sannarlega alvarlega. “Það var engin spurning hjá mér um að hafa prjónandi fólk á myndum í bókinni” útskýrir Hélène, “annars hefði ferðasagan einfaldlega ekki verið nákvæm!” segir hún og hlær. Við gætum ekki verið meira sammála: prjón er svo ríkur hluti íslenskrar menningar að það að líta fram hjá því hefði verið alvarlegur galli á bókinni.
“Við Charline unnum náið saman við gerð myndanna. Ég sendi henni myndir af prjónandi fólki og útskýrði hvernig Íslendingar prjóna næstum allt í hring á hringprjóna. Ég tók myndir af höndunum mínum til að sýna hvernig maður heldur rétt á prjónunum og rétta legu bandsins. Mér finnst útkoman frábær, sérstaklega með það í huga að hún kann ekki að prjóna sjálf!”
Okkur finnst nú gráupplagt að bæta úr því og fá hana til Íslands í eina af prjónaferðunum okkar? “Ég lagði líka mikla áherslu á að sýna litla íleppa í bókinni.” bætir Hélène við, enda er hún frekar gagntekin af rósaleppum eins og margir hafa eflaust tekið eftir.
Ef ekki, og ykkur langar að sjá hversu langt hún er leidd, mælum við með því að þið skoðið bók hennar “Rósaleppaprjón í nýju ljósi” (Salka 2006), sem er helguð gömlu íslensku íleppunum. “Það var Charline sem fékk þá frábæru hugmynd að birta mynd af litlum sauðskinsskóm með íleppum á teikningunni af jólasveinunum þrettán. Mér þótti sérstaklega vænt um að hún skyldi einmitt velja Hamarrósina úr öllum myndunum sem ég sendi henni. Hún er í algjöru uppáhaldi hjá mér og eiginlega orðin að einkennismerki mínu.”
Eins og algengt er á Íslandi voru fjölskyldutengslin notuð þegar kom að því að vinna hljóðútgáfu bókarinnar. Hægt er að hlusta á bókina á heimasíðu útgefandans og þar heyrist í bakgrunni í sjóðandi hverum og gnuðandi vindi en afi eiginmanns Hélène, Skúli Halldórsson, samdi inngangstónlistina, “Viva Strætó”.