“Ég lærði að prjóna í skyldunámi í grunnskóla, eins og svo margir aðrir Íslendingar. Kristín Jónsdóttir Schmidhauser kenndi mér að prjóna þegar ég var 10 ára. Mér leiddist óskaplega í handavinnu því þá varð maður að sauma og prjóna einhver tiltekin stykki. Það var ekki Kristínu að kenna, því hún var mjög góður kennari, heldur var skólakerfið þannig á þessum árum. Seinna þegar ég var um 15 ára fór ég í handavinnu í framhaldsskóla. Þar bjó ég til munstur sem ég fékk að prjóna eftir og síðan þá hef ég verið prjónafíkill. Um leið og ég byrja að prjóna flík þá er ég farin að hanna þá næstu í huganum. Ég hef aldrei getað prjónað eftir uppskriftum annarra. Ég lauk vefnaðarkennaraprófi frá Myndlista-og handíðaskóla Íslands árið 1975. Eftir skóla óf ég mottur sem ég hannaði sjálf eftir pöntunum, en það var mjög tímafrekt og lítið upp úr því að hafa. Þá fór ég á prjónatækninámskeið til Rögnu Þórhallsdóttur. Þar sem ég er haldin meðfæddri fatadellu leiddist ég út í að hanna prjónaflíkur. Myndlistarnámið nýttist mér vel við þá iðju og gerir enn.
Fyrstu frumsömdu uppskriftirnar mínar birtust í tímaritinu Vikunni í byrjun níunda áratugarins. Fljótlega eftir það hafði Erla Eggertsdóttir samband við mig varðandi prjónahönnun í prjónablaðið Lopi og band sem hún setti á laggirnar og ritstýrði frá árinu 1981. Ég hannaði mjög mikið fyrir “Lopa og band” og var í draumastarfi þar sem ég teiknaði upp peysurnar, prjónaði prufur og síðan var hugmyndin prjónuð af prjónakonum og uppskriftin gerð á skrifstofu blaðsins. Þessi sælutíð varði þangað til Erla hætti með blaðið rétt eftir 1991 og seldi það öðrum. Þá dalaði blaðið allmikið, svo mikið að ég ákvað árið 1994 að fara til þáverandi útgefanda, Jóhanns Þóris Jónssonar eiganda Skákprents, til að bjóða honum að hanna fyrir blaðið án endurgjalds. Hann bauð mér þá að gerast ritstjóri blaðsins.
Lopi og band kom út undir minni ritstjórn árin 1995, ‘96 og ‘97, alls 15 eintök eða þar til áðurnefndur Jóhann Þórir dó haustið 1997. Þar sem útgáfa prjónablaðs er aðeins hagkvæm þeim sem selja garn tók enginn við útgáfu blaðsins. Í gegnum tíðina hafa birst á prenti rúmlega 200 uppskriftir eftir mig sem flestar voru samdar fyrir íslenska ull.”
Um aldamótin 2000 fékk ég áhuga á gömlum íslenskum þjóðbúningum og saumaði fjóra mismunandi búninga. Áhuginn varð svo mikill að ég hóf fljótlega nám í Háskóla Íslands og lauk þaðan BA prófi í þjóðfræði með fornleifafræði sem aukafag árið 2005. Eftir það hef ég t.d. endurgert útsaumaða kirkjumuni frá 18. öld, saumað segl á báta frá 19. öld. og að sjálfsögðu haldið áfram að hanna prjónaflíkur.”
Stærðir : XS(S,M,L,1X,2X), yfirvidd 75(85,95,108,118,128)cm
Prjónfesta: 10 x 10 cm = 12 L og 17 umf á prjóna nr. 6 í sléttu prjóni með þreföldum plötulopa
Garn: Plötulopi, prjónaður þrefaldur: 200(300,300,400,400,500)g (búkur og ermar); Álafoss Lopi: 2(2,2,3,3,3) dokkur (stroff og listar).
Svört peysa: litur 0059.
Sauðalita peysa: plötulopi, litir 0059, 0057 og 0053 prjónaðir saman og Álafoss lopi litur 0059.
Fjólublá peysa: plötulopi, litur 1428; Álafoss lopi, litur 0163 og Kambgarn (prjónað tvöfalt), litur 0996.Prjónar: hringprjónar 6 mm; merki stoppunál.
Aðferð: prjónað í hring, klipt í.
Uppskrift: hún kemur sem PDF niðurhal en er ekki send í pósti.
Errata: það fannst villa, sjá leiðréttingu. Uppskritirnar keyptar eftir 2011 eru réttar.