Peysan ber nafnið Fimmvörðuháls, en hann varð heimsfrægur í eldgosinu í Eyjafjallajökli árið 2010. Ég prjónaði peysuna sumarið 2011 á göngu yfir hálsinn. Nánar tiltekið í einni af prjónaferðum mínum um Ísland, ferðinni Göngu og prjónaferð yfir Fimmvörðuháls. Ég prjónaði gangandi, alveg eins og gert var í gamla daga þegar enginn tími mátti fara til spillis og konur og karlar prjónuðu gjarna á meðan þau gengu á milli bæja.
Ég held dokkunni undir handleggnum á meðan ég geng. Nokkrum sinnum missti ég hvíta dokku ofan í svarta öskuna og sýndi þannig öllum samferðamönnum mínum fram á, hvað íslenska ullin hrindir vel frá sér óhreinindum og hvað hún er sterk!
Peysan er í grunninn dæmigerð íslensk lopapeysa. Sú hefð er fremur ný, hún náði hámarki á áttunda áratugnum. En peysan er einnig innblásin af eldri íslenskum prjónahefðum. Sniðið og óvenjulegir olnbogarnir eru ættaðir frá gömlum peysufatapeysum. Blúndan á berustykkinu er létt og kvenleg og minnir á hefðbundin útprjónuð sjöl. Heklaði kanturinn gefur fínlegt yfirbragð, en heklaðir kantar voru einmitt mjög algengir á sjölum hér áður fyrr. Litirnir minna mig á Eyjafjallajökul, þakinn ösku.
Um hönnuðinn:
Hélène Magnússon finnst gaman að bregða á leik með íslenskar prjónahefðir. Hún vann árum saman sem fjallaleiðsögumaður meðfram því að læra textíl- og fatahönnun við Listaháskóla Íslands. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum hönnunarsýningum á Íslandi og erlendis og verk eftir hana hafa verið birt í virtum prjónatímaritum svo og bókum. Hún rekur vefsíðuna prjónakerling.is og bíður einnig upp á spennandi göngu- og prjónaferðir fyrir erlent jafnt sem íslenskt prjónafólk. Ferðirnar eru óviðjafnanlegt tækifæri til þess að kynnast ólíkum prjónaaðferðum í hópi fólks frá mismunandi löndum þar sem prjónið verður aðal tungumálið!
Stærðir
Dömu: XS(S, M, L)XL, XXL, XXXL
Tilbúin mál (peysan er aðskorin)
- Yfirvídd: 69(75.5,86.5, 91)102,115.5,124.5 cm
- Mitti: 51(57.5,69,73.5) 84.5,98,106.5cm
- Lengd bols að handvegi: 37(38,39,41) 43,45,47 cm
- Ermalengd að handvegi: 45(46,47,48)49,49,49 cm
Sýnishorn er í stærð M.
Garn: Léttlopi, 100% hrein íslensk ull, 50g/dokkan, 50g = u.þ.b.100 m: aðallitur #0051, 6(7,7,8)8,9,9 dokkur; aukalitur 1 #0054,1 dokka; aukalitur 2 #0057, 1 dokka
eða Cascade 220 garn, 100% ull frá Perú, 100g/dokkan = u.þ.b. 200m: aðallitur #8010 3(4,4,4)4,5,5 dokkur; aukalitur 1 #8401 1 dokka; aukalitur 2 #8400 1 dokka
Prjónar: hringprjónar nr 4,5 og 5. Töfralykkju-aðferðin (e. Magic Loop) er notuð til að prjóna ermar og háls en einnig má nota sokkaprjóna. Heklunál 4 mm.
Annað: prjónamerki, stoppunál, 4 geymslunálar
Prjónfesta: 10 x10 cm = 18 L og 24 umf í sléttu prjóni á prjón nr 5. Skiptið um prjónastærð ef þarf, til að ná réttri prjónafestu.
Aðferð: prjónað í hring, stuttu umferðirnar, bráðabirgðauppfit og fellt af með hekluðum loftlykkjubogum, blúnduprjón
Uppskrift: hún kemur sem PDF niðurhal en er ekki send í pósti..
Errata: engan villu fannst.